Fótbolti

Valencia og Inter kærð vegna ólátanna í gær

AFP

Evrópska knattspyrnusambandið hefur kært Valencia og Inter Milan vegna slagsmálanna sem brutust út eftir leik liðanna í gær. Þá hafa fimm leikmenn úr liðunum verið kærðir sérstaklega fyrir alvarleg agabrot.

Carlos Marchena og David Navarro hjá Valencia og þeir Nicolas Burdisso, Ivan Cordoba og Maicon hjá Inter hafa allir verið kærðir fyrir gróf agabrot, en þeir voru mest áberandi í uppþotinu í gær. Navarro verður líklega sá sem fær þyngsta refsingu, en hann nefbraut Burdisso með hnefahöggi og átti upptökin að slagsmálunum - sem bárust alla leið inn í búningsherbergi eftir leikinn.

Málið verður tekið fyrir þann 14. mars og verður fram að þeim tíma í höndum aganefndar Uefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×