Erlent

Semja verður við uppreisnarmenn

David Petraeus, yfirmaður Bandaríkjahers í Írak, segir útilokað að koma á friði í Írak með hernaðaraðgerðum einum saman heldur verði að fá uppreisnarmenn að samningaborðinu. Á blaðamannafundi í morgun sagði hann teikn á lofti um að átök trúarhópa í landinu væru í rénun.

Petraeus hélt blaðamannafund í morgun, þann fyrsta frá því að hann tók við stöðu sinni í síðasta mánuði. Óhætt er að segja að hann hafi á þeim tíma haft í nógu að snúast. Nokkrar vikur eru frá því skorin var upp herör gegn uppreisnarmönnum í landinu sem virðast á móti hafa látið saklaust fólk finna enn meira fyrir því en áður. Bandaríska landvarnaráðuneytið samþykkti í gær að senda 2.200 herlögreglumenn til Íraks til viðbótar við þá 21.000 hermenn sem er verið að flytja þangað um þessar mundir. Alls eru því 140.000 erlendir hermenn í Írak nú um stundir.

Á fundinum í morgun sagði Petreus ekki búast við að meiri liðsauka þyrfti í Írak en ítrekaði um leið að útilokað væri að þar á friði með hersveitunum einum saman. Íraska ríkisstjórnin yrði að fá þá uppreisnarhópa að samningaborðinu sem hægt væri að semja við. Hvað ofbeldið á milli sjía og súnnía varðaði sagði Petreus að áfram mætti búast við árásum á borð við þá í Hillah í vikunni sem kostaði á annað hundrað mannslíf. Engu að síður kvaðst hann sjá teikn á lofti um að átök trúarhópa væru í rénun, án þess að útskýra það nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×