Erlent

Chirac kveður á sunnudaginn

Jacques Chirac, forseti Frakklands.
Jacques Chirac, forseti Frakklands. MYND/AP

Búist er við að Jacques Chirac, forseti Frakklands, tilkynni á sunnudaginn að hann muni ekki bjóða sig fram í komandi forsetakosningum. Tilkynnt hefur verið að forsetinn muni flytja ávarp í sjónvarpi klukkan 7 á sunnudagskvöld.

Chirac hefur fram til þessa neitað að ræða mögulegt framboð sitt, en skoðanakannanir benda til þess að hann ætti litla sem enga möguleika ef hann færi fram. Frakkar munu fylgjast grannt með ávarpi forsetans til þess að heyra hvort hann lýsi yfir stuðningi við Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra, sem er frambjóðandi íhaldsmanna í kosningunum, og flokksbróðir Chiracs.

Allt eins er búist við að slíkum stuðningi verði lýst með mjög almennum orðum, þar sem Chirac er ekkert sérlega hrifinn af þessum flokksbróður sínum. Jacques Chirac á að baki fjörutíu ára feril í frönskum stjórnmálum og hefur vissulega sett svip sinn á stjórnmál, bæði þar og á alþjóðavettvangi. Hann leiddi til dæmis andstöðu þeirra Evrópuþjóða sem voru á móti innrásinni í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×