Fótbolti

Louis van Gaal orðaður við ástralska landsliðið

Hollenski þjálfarinn Louis van Gaal, þjálfari Grétars Steinssonar og félaga hjá AZ Alkmaar, er nú sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá ástralska landsliðinu í knattspyrnu. Van Gaal er hins vegar ekki svo áhugasamur þar sem hann telur að ástralska liðið geti ekki unnið HM í knattspyrnu.

“Ég vill vinna, þannig er ég einfaldlega gerður. Þjálfarastaðan hjá Ástralíu er vissulega áhugavert starf, en ég horfi frekar til stærri landsliða, eins og t.d. Spán og Argentínu þar sem þau eiga meiri möguleika á að verða heimsmeistarar,” sagði van Gaal en útilokaði þó ekkert.

Guus Hiddink kom ástralska liðinu í 16-liða úrslit á HM í Þýskalandi í sumar og segir van Gaal að fari svo að hann taki starfinu, sé markmið hans að gera betur en forveri sinn. “En það verður gríðarlega erfitt. Hiddink stóð sig frábærlega á sínum tíma með liðið.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×