Yfirheyrslur í Baugsmálinu hafa staðið yfir Arnari Jenssyni fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóni efnahagsdeildar Ríkislögreglustjóra í morgun. Hann hafnaði því að rannsókn Baugsmálsins hefði verið ólík rannsóknum annarra mála. Tekið hafi verið jafnt tillit til bæði gagna, og atriða, sem vörðuðu sekt og sýknu sakborninga.
Arnar hafnaði því einnig að lögreglan hefði einungis valið tölvupósta sem voru óhagstæðir sakborningum. Hann benti á að hugsanlega hefði verið hægt að ákæra fyrir fleiri atriði tengd meintum ólölgegum lánveitingum en það hefði ekki verið gert eftir að skýringar hefðu borist frá sakborningum og Baugi. Í því sambandi nefndi hann viðskipti Baugs og Gaums í tengslum við fyrirtækið Smárastein, tengt Smáralind. Skýringar sakborninga hefðu komið fram og því ekki ákært.
Arnar kannaðist við að hafa rætt við lögmann Tryggva Jónssonar, Andra Árnason, á fyrri stigum málsins um að staða hans yrði önnur ef hann ynni með lögreglunni. Hann sagðist hafa sagt Helga Jóhannessyni, lögmanni Jóns Ásgeirs, það sama, að ef menn hefðu grun um að sakborningur segði ekki satt og rétt frá gæti það haft áhrif á stöðu hans í málinu.
Arnar kannaðist ekki við að Tryggva Jónssyni hefði verið haldið matarlausum í tæpan sólarhring þegar yfirheyrslur stóðu yfir honum í upphafi málsins. Hann sagði: „Það væru herfileg mistök ef svo hefði verið."
Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar spurði Arnar út í aðkomu hans að málinu í upphafi þess. Arnar sagði að Jón H.B. Snorrason hefði sagt sér að Jón Steinar Gunnlaugsson hefði haft samband við sig vegna skjólstæðings sem hefði ásakanir á hendur Baugi.
Eina aðkoma Arnars hafi verið sú að ákveða hver tæki skýrsluna af Jóni Gerald Sullenberger. Arnar var spurður hvort honum hefði verið kunnugt um að ákvörðun um að fara í húsleit 28. ágúst, vegna þess að lögreglu hafi verið kunnugt um umfjöllun Séð og heyrt um skemmtibátinn Thee Viking. Hann sagðist ekki vita það.
Þá var vísað í 500 síður sem Jón Gerald Sullenberger sendi lögreglu á faxi og varðaði einkamál milli hans og Jóns Ásgeirs í Bandaríkjunum. Arnar gat ekki svarað því af hverju þessi gögn voru send lögreglu, en sagði dæmi þess að embætti ríkislögreglustjóra fylgdist með málaferlum Íslendinga í útlöndum, þó svo hann gæti ekki nefnt dæmi.