Fótbolti

Platini leggur fram umdeildar tillögur

Michel Platini
Michel Platini AP

Michel Platini, forseti evrópska knattspyrnusambandsins, lagði í dag fram tillögur sínar um breytingar á keppnisfyrirkomulagi í Meistaradeild Evrópu. Platini kynnti þessar tillögur áður en hann bauð sig fram til forseta fyrir nokkrum vikum og voru þær harðlega gagnrýndar af forráðamönnum stærstu knattspyrnudeilda Evrópu.

Platini vill breyta fyrirkomulaginu í Meistaradeildinni á þann hátt að hann vill fækka liðum úr stærstu deildum Evrópu úr fjórum í þrjú. Þessar tillögur mættu harðri gagnrýni frá Englendingum, Spánverjum og Ítölum svo einhverjir séu nefndir, en þessar þjóðir eiga skiljanlega mikilla hagsmuna að gæta í málinu.

Platini hefur lagt til að liðin sem hafna í fjórða sæti í stóru deildunum fari í sérstaka úrslitakeppni á vorin þar sem þau myndu reyna fyrir sér innbyrðis um laust sæti í meistaradeildinni - eða spila við eitthvað af toppliðunum frá "minni" þjóðum.

"Þetta er spurning um jafnvægi. Meistaradeildin á ekki að vera bara spurning um sjónvarpstekjur og peninga. Ég sé þetta sem tækifæri til að jafna bilið milli stórliða Evrópu og liða frá löndum eins og t.d. Damörku og Tékklandi," sagði Platini.

Platini tilkynnti þessar tillögur á sérstökum fundi í London í dag, en þær verða svo settar formlega fyrir skipulagsnefnd í maí. Nái þær í gegn um skipulagsnefndina verða þær teknar fyrir á þingi knattspyrnusambandsins næsta september. Verði þær samþykktar þar, myndu þær taka endanlega gildi tímabilið 2009-2010.

Víst þykir að þessar tillögur muni mæta mjög harðri andstöðu frá stóru knattspyrnufélögunum, sem og frá forráðamönnum félaga á Englandi, Ítalíu og Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×