Handbolti

Sigur hjá toppliðunum

Toppliðin þrjú í DHL-deild karla í handbolta unnu öll leiki sína í dag þegar fjórir leikir voru á dagskrá í deildinni. Valsmenn eru sem fyrr á toppnum eftir 35-29 sigur á Fylki í dag og HK heldur öðru sætinu eftir góðan útisigur á Stjörnunni 26-25.

Valur skoraði fimm fyrstu mörkin í Árbænum gegn Fylki í dag en Fylkismenn jöfnuðu metin í 8-8. Agnar Jón Agnarsson átti stórleik fyrir Fylki, skoraði 12 mörk, öll úr þrumuskotum utan af velli. Næstur honum kom Eymar Kruger með 6 mörk. Í hálfleik var staðan 16-13 fyrir Val.

Valsmenn héldu frumkvæðinu í síðari hálfleik. Ólafur Helgi Gíslason varði 23 skot í marki Vals en Ernir Hrafn Arnarsson var markahæstur með 8 mörk og þeir Arnór Gunnarsson og Sigurður Eggertsson skoruðu 6 mörk hvor. Valur sigraði með 6 marka mun, 35-29.

Valur hefur ennþá eins stigs forystu í deildinni því HK marði sigur á Stjörnunni í Garðabænum. HK var fjórum mörkum yfir í hálfleik en mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik. HK sigraði að lokum með 26 mörkum gegn 25. Gunnar Ingi Jóhannsson skoraði 7 mörk fyrir Stjörnuna og þeir Tite Kaladaze og Patrekur Jóhannesson 5 mörk hvor. Augustas Stradaz var markahæstur hjá HK með 7 mörk og þeir Ragnar Hjaltested og Valdimar Þórsson skoruðu 5 mörk hvor.

Fram sigraði Hauka 24-22 og Akureyri vann ÍR með 24 mörkum gegn 21. Valur er með 25 stig, HK 24 og Fram er í þriðja sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×