Handbolti

Frábær endasprettur tryggði Akureyri sigur

Kári Kristjánsson og félagar í Haukum fóru illa að ráði sínu á lokasprettinum í dag.
Kári Kristjánsson og félagar í Haukum fóru illa að ráði sínu á lokasprettinum í dag.

Haukar máttu þola tap á heimavelli sínum fyrir Akureyri í DHL-deild karla í handbolta í dag, 27-28. Heimamenn fóru afar illa að ráði sínu á lokasprettinum eftir að hafa verið með forystu stærstan hluta leiksins. Akureyri er nú komið með 18 stig og fjarlægist óðum fallbaráttuna en Haukar eru áfram með 12 stig og í bullandi fallbaráttu.

Haukar höfðu forystu í hálfleik, 15-13, og þegar um tíu mínútur voru eftir hafði liðið þriggja marka forystu, 25-22. Þá settu Akureyringar hins vegar í lás, skoruðu fimm mörk í röð og lögðu grunninn að sigrinum.

Goran Gusic skoraði mest gestanna, eða 6 mörk, en þeir Nikola Jankovic og Magnús Stefánsson voru með fimm mörk hver. Hjá Haukum skoraði Guðmundur Pedersen átta mörk en Andri Stefan kom næstur með fimm mörk. Magnús Sigmundsson varði 18 skot í markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×