Fótbolti

Bann Navarro stytt

NordicPhotos/GettyImages

Aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu hefur stytt keppnisbann leikmanna Valencia og Inter Milan sem slógust eftir leik liðanna í Meistaradeildinni fyrr í þessum mánuði. David Navarro hjá Valencia fær þannig sex mánaða bann í stað sjö. Bæði félög áfrýjuðu þungum refsingum og höfðu erindi sem erfiði.

Marchena, félagi Navarro hjá Valencia, fær tveggja leikja bann í stað fjögurra. Cordoba hjá Inter fær bann sitt stytt úr þremur í tvo og Maicon úr sex í þrjá. Nicolas Burdisso hjá Inter fékk á sínum tíma sex leikja bann og það mun standa.

Allir leikmennirnir sem dæmdir voru í bann voru settir á tveggja ára skilorð og eiga von á mjög hörðum refsingum ef þeir gerast brotlegir á ný. Þessar upplýsingar komu fram á heimasíðum félaganna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×