Fótbolti

PSV - Liverpool í beinni á Sýn í kvöld

Dirk Kuyt verður á kunnuglegum slóðum með Liverpool í kvöld
Dirk Kuyt verður á kunnuglegum slóðum með Liverpool í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Fyrri leikur PSV Eindhoven og Liverpool í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar verður sýndur beint á Sýn í kvöld klukkan 18:30. Þetta verður þriðja viðureign liðanna í vetur þar sem þau léku saman í riðlakeppninni. Liverpool ætti að vera klárt í slaginn eftir frábæran sigur á Arsenal um helgina, en hollenska liðinu hefur ekki gengið sérlega vel í deildinni undanfarið.

Peter Crouch mun væntanlega halda sæti sínu í byrjunarliðinu eftir að hann skoraði þrennu í 4-1 sigri Liverpool á Arsenal. Craig Bellamy er tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla á rifbeini en Dirk Kuyt fær væntanlega tækifæri í byrjunarliðinu gegn löndum sínum. Mohamed Sissoko er í banni og því gæti Javier Masherano fengið að byrja á miðjunni með Xabi Alonso.

Steven Gerrard hefur hrist af sér kálfameiðsli og verður væntanlega á hægri kanti. Steve Finnan og Sami Hyypia verða aftur í leikmannahópi Liverpool eftir að hafa verið hvíldir gegn Arsenal.

PSV er í miklum vandræðum með meiðsli. Varnarmaðurinn sterki Alex er meiddur á læri og Fílstrendingurinn Arouna Kone er meiddur á hné. Hollenski landsliðsmaðurinn Ibrahim Afellay er tæpur eftir að hann meiddist í síðasta deildarleik og þá eru þeir Michael Reiziger, John de Jong og Alcides allir frá keppni meiddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×