Fótbolti

Mourinho: Einvígið er galopið

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho lét ekki hugfallast þó hans menn í Chelsea hefðu aðeins náð jafntefli við Valencia í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum á Stamford Bridge í kvöld. Hann segir einvígið opið í báða enda og hefur fulla trú á að hans menn geti farið til Spánar og klárað dæmið. John Terry treystir á að Didier Drogba muni reynast enska liðinu drjúgur í síðari leiknum.

"Þetta voru ekki svo slæm úrslit því jafntefli þýðir að allt er opið. Við getum vel tryggt okkur sæti í undanúrslitum í Valencia. Þetta var erfiður leikur fyrir bæði lið og allir leikmennirnir eru úrvinda. Ég er viss um að þeir telja sig í betri stöðu núna en ég held að við getum náð hagstæðum úrslitum á útivelli. Við þurfum að fá góðan dómara og spila vel. Þetta er allt opið," sagði Mourinho.

John Terry fyrirliði var jafn borubrattur og stjórinn, en gerir sér grein fyrir erfiðu verkefni sem bíður liðsins á Mestalla þann 10. apríl.

"Þeir skoruðu frábært mark og slógu okkur aðeins út af laginu. Við höfum oft sínt það áður að við getum náð góðum úrslitum á útivelli í síðari leik. Þeir eru með frábært lið, svo þetta verður erfitt - en ég trúi að við getum vel ráðist á þá og sett mörk. Það er alltaf möguleiki með Didier Drogba í framlínunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×