Fótbolti

Sálfræðistríðið hafið hjá Benitez og Mourinho

NordicPhotos/GettyImages

Í kvöld varð ljóst að það verða Liverpool og Chelsea sem mætast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Liðin háðu eftirminnilegt einvígi í keppninni fyrir tveimur árum og segja má að sálfræðistríðið fyrir undanúrslitin hafi byrjað strax í dag þegar Benitez skaut föstum skotum að kollega sínum.

Mourinho sagði að Liverpool ætti mun auðveldara verkefni fyrir höndum í undanúrslitunum því liðið væri aðeins að keppa um einn titil í vor - á meðan hans menn væru í harðri baráttu á öllum vígstöðvum.

Benitez svaraði þessum ummælum í dag og þegar hann var spurður hvort enn andaði köldu milli þeirra tveggja - sagði hann að Mourinho ætti aðeins gott samband við þá knattspyrnustjóra sem hann næði að sigra.

"Við vorum fínir vinir þangað til við fórum að vinna. Þá snerist honum hugur og það er sama sagan með alla stjóra hjá toppliðunum. Hann er vinur allra þeirra stjóra sem hann nær að vinna á knattspyrnuvellinum en er í stríði við alla hina. Hann byrjaði stríðið við okkur formlega í gær," sagði Benitez og segist viss um að Mourinho væri ekki til í að skipta um starf við sig.

"Við vitum að Chelsea er frábært lið, enda hafa þeir verið að eyða gríðarlegum fjárhæðum í leikmenn á síðustu árum. Það verður erfitt að mæta Chelsea í Meistaradeildinni en í augnablikinu erum við að einbeita okkur að deildinni. Chelsea er í bullandi baráttu um alla titla sem í boði eru og það er erfitt, en það er það sem þeir vilja. Ég efast um að Mourinho myndi vilja skipta við mig," sagði Spánverjinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×