Innlent

Varað við lyfi gegn magakveisu ungbarna

Lyfið Minifom, sem fjölmörgum hvítvoðungum er gefið við magakveisu, inniheldur rotvarnarefni sem geta haft hormónatruflandi áhrif. Norska lyfjastofnunin hefur því varað við notkun þess. Málið er til athugunar hjá Lyfjastofnun Íslands.

Mörg kornabörn fá svokallaða ungbarnakveisu á fyrstu mánuðum lífs síns. Afar algengt er að foreldrar grípi til þess ráðs að gefa barninu Minifom-dropa til að draga úr verkjunum - þá fær barnið nokkra dropa fyrir hverja brjóstagjöf og á það að draga úr gasmyndun í meltingarvegi.

Nú hefur norska lyfjastofnunin varað við langvarandi notkun lyfsins, þar sem það innihaldi rotvarnarefni sem líkami fullorðinna einstaklinga geti brotið niður tiltölulega hratt, en minnstu mannverurnar eiga hins vegar erfiðara með. Með langvarandi notkun er átt við vikur, ekki mánuði eða ár.

Rannsóknir sýna að efnin valda hormónatruflunum í dýrum, en áhrif á hormónaflæði í mönnum hefur ekki verið rannsakað til hlítar, en sem fyrr eru hvítvoðungar viðkvæmari fyrir slíkum truflunum en fullvaxnir kroppar.

Lyfjastofnun Íslands ætlar að kanna þetta mál nánar og athuga í hvaða lyfjum öðrum þessi efni kann að vera að finna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×