Strax Holdings rekur meðal annars Farsímalagerinn og nýlega festi fyrirtækið kaup á Hans Petersen. Færri vita hins vegar að fyrirtækið er einnig stærsti dreifingaraðili farsímafylgihluta í Evrópu. „Við stofnuðum fyrirtækið árið 1994 með það að markmiði að verða stærsti dreifingaraðilinn í Suður-Ameríku," segir Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri HP Farsímalagersins og einn af stofnendum Strax. „Við opnuðum skrifstofur í Miami og í Hong Kong en eftir að við opnuðum í London 1999 tókum við stefnuna á að verða stærstir í Evrópu."
Kjartan segir lykilinn að baki velgengni Strax felast í pan-evrópsku formi fyrirtækisins. Þegar farsímafyrirtækin stækkuðu, og fóru að bjóða þjónustu sína í mörgum löndum, sáu eigendur Strax sér leik á borði og fylgdu þeirri þróun eftir með starfsemi sinni. „Í dag dreifum við vörum frá öllum helstu farsímaframleiðendunum til margra alþjóðlegra símafyrirtækja og verslunarkeðja um alla Evrópu og allan heim," segir Kjartan.
Gegnum Farsímalagerinn og Hans Petersen ætla eigendur Strax að kanna áður óþekktan markað. „Stærsti söluaðili myndavéla í heiminum var Nokia með myndavélasíma sína. Þetta er stafræna byltingin í hnotskurn.
Tækifærin sem við sjáum eru að verða bæði stærstir í sölu stafræns búnaðar og einnig í myndvinnslu fyrir þennan nýja markaðshóp," segir Kjartan.