Viðskipti innlent

FL Group í samstarf við Donald Trump

FL Group hefur fjárfest í fjórum fasteignaverkefnum í Bandaríkjunum fyrir 50 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði um þriggja milljarða króna. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu eru verkefnin unnin í samstarfi við Bayrock Group sem er alþjóðlegt fasteignafélag staðsett í Bandaríkjunum.

Um er að ræða uppbyggingu á Trump Soho og Trump Lauderdale, fimm stjörnu hótelum annars vegar í Soho-hverfinu á Manhattan í New York og hins vegar á strönd Fort Lauderdale. Bæði hótelin eru byggð í samstarfi við Donald Trump.

Þriðja verkefnið snýr að þróun 13 ekru landsvæðis í Whitestone í Queens en Bayrock mun í framhaldinu byggja fjölda lúxusíbúða á svæðinu. Þá er ætlunin að byggja fimm stjörnu hótel í Phoenix.

Áætlað er að verkefnunum verði lokið innan þriggja ára og fjárfestingin verður fjármögnuð með eigin fé og lánsfé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×