Körfubolti

Stan Van Gundy tekur við Orlando

Stan Van Gundy náði ágætum árangri með Miami á sínum tíma, en þurfti að víkja fyrir Pat Riley
Stan Van Gundy náði ágætum árangri með Miami á sínum tíma, en þurfti að víkja fyrir Pat Riley NordicPhotos/GettyImages

Stan Van Gundy hefur verið ráðinn þjálfari Orlando Magic í NBA deildinni. Van Gundy var síðast þjálfari Miami Heat í tvö ár en sagði af sér árið 2006. Hann hafði einnig verið í viðræðum við Sacramento Kings, en skrifaði undir hjá Orlando um leið og félagið náði að losa sig út úr samningnum sem það gerði við Billy Donovan á dögunum.

Donovan skrifaði undir samning við Orlando en hætti við allt saman skömmu síðar og mun líklega halda áfram að þjálfa háskólalið Florida. Van Gundy er sjálfur með nokkuð flókna samningsstöðu, en hann er enn bundinn Miami Heat í eitt tímabil í viðbót þar sem hann hefur starfað sem ráðgjafi Pat Riley. Fregnir herma að Miami hefði líklega leyft honum að fara ef hann hefði tekið við liði í Vesturdeildinni, en til greina kemur að Orlando greiði fyrir hann eða láti valrétt í nýliðavalinu til Miami í staðinn úr því hann fer til grannaliðsins sem leikur í sama riðli í deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×