Fótbolti

Suazo snerist hugur - Eto´o út úr myndinni

AFP

Framherjinn David Suazo skipti heldur betur um skoðun í gær þegar hann gerði samning við AC Milan. Suazo, sem er landsliðsmaður Hondúras, var fyrir helgina sagður hafa gengið í raðir Inter Milan frá Cagliari eftir frábært tímabil í vetur þar sem hann skoraði 14 mörk. Forráðamenn Cagliari tilkynntu fyrir helgi að Inter væri þegar búið að kaupa hann, en nú hefur hann gengið í raðir erkifjendanna.

Suazo var á dögunum valinn besti útlendingurinn í ítölsku deildinni ásamt Brasilíumanninum Kaka hjá Milan og í dag tilkynnti varaforsetinn Adriano Galliani að ef til vill yrði ekkert af fyrirhuguðum kaupum félagsins á Samuel Eto´o frá Barcelona eftir að félagið landaði Suazo. Þessi tíðindi gera væntanlega lítið annað en að auka á fjandskap grannliðanna í Milano, en Galliani fullyrðir að áhugi AC Milan á leikmanninum nái langt aftur á síðustu leiktíð þegar leikmaðurinn skoraði 22 mörk fyrir lið sitt og setti félagsmet. Talið er að kaupvirðið sé um 14 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×