Fótbolti

Fenerbahce: Við erum að kaupa Ronaldo

NordicPhotos/GettyImages

Stjórnarformaður Fenerbahce í Tyrklandi segir að félagið sé við það að ganga frá kaupum á brasilíska framherjanum Ronaldo frá AC Milan. Félagið gekk frá kaupum á landa hans Roberto Carlos frá Real Madrid á dögunum og segir stjórnarformaðurinn það ekkert leyndarmál lengur að félagið sé að landa Ronaldo.

"Við erum að ganga frá kaupum sem munu skyggja á Roberto Carlos. Ronaldo er heimsþekktur leikmaður og hann mun falla vel inn í það sem við erum að gera. Það hefur ekkert upp á sig að vera að leyna því lengur að við erum við það að ganga frá kaupum á honum," sagði Aziz Yldirim í samtali við Eurosport.

Fregnir herma að kaupverðið sé í kring um 9 milljónir evra og að Ronaldo muni fá um 4 milljónir evra í árslaun ef af viðskiptunum verður. Fyrir hjá félaginu eru nokkrir aðrir Brasilíumenn eins og Carlos, Alex de Souza, Edu Fracena, Marco Aurelio og Deivid de Souza. Það er svo brasilíska goðsögnin Zico sem þjálfar liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×