Körfubolti

Kirilenko beðinn að taka sig saman í andlitinu

Forráðamenn Utah Jazz eru orðnir leiðir á vandræðum Kirilenko, en sitja væntanlega uppi með hann næstu árin
Forráðamenn Utah Jazz eru orðnir leiðir á vandræðum Kirilenko, en sitja væntanlega uppi með hann næstu árin NordicPhotos/GettyImages

Larry Miller, eigandi Utah Jazz í NBA deildinni, hefur farið þess á leit við framherjann Andrei Kirilenko að hann hætti að væla og fari að spila eins og maður. Kirilenko olli miklum vonbrigðum á síðasta tímabili og Miller upplýsti áhugaverða hluti um Rússann í útvarpsviðtali á dögunum.

Miller er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum þegar leikmenn liðsins eru annars vegar - ekki síst þegar kemur að mönnum sem honum þykir ekki vera að vinna fyrir kaupinu sínu. Kirilenko er launahæsti leikmaður Jazz, en þessi fyrrum stjörnuleikmaður var skugginn af sjálfum sér á síðustu leiktíð og fyllti mælinn hjá mörgum af stuðningsmönnum liðsins þegar hann brast í grát eftir leik gegn Houston í úrslitakeppninni.

Miller upplýsti í útvarpsviðtali á dögunum að fyrir nokkrum árum hefði Dallas boðið Utah hvaða leikmann sem var í skiptum fyrir Kirilenko. Þá spiluðu þar menn á borð við verðmætustu leikmenn NBA síðustu þriggja ára - Steve Nash og Dirk Nowitzki. Miller segir að ef honum yrðu boðin álíka skipti í dag, myndi hann líklega þiggja þau.

"Það er engin brunaútsala í gangi hjá okkur varðandi Andrei, en ef við finndum lið sem myndi henta honum betur sem gæti boðið okkur eitthvað sem hentar okkur betur - myndum við klárlega skoða það," sagði Miller og hafði skilaboð til Kirilenko í sama viðtali. "Ég vildi óska að hann myndi bara þroskast og fara að spila eins og hann gerði hér áður," sagði Miller.

Kirilenko á inni 63 milljónir dollara hjá Utah næstu fjögur árin en á síðasta tímabili skoraði hann aðeins 8,3 stig og hirti 4,7 fráköst. Þó helsti styrkur Kirilenko sé almennt álitin fjölhæfni hans og varnarleikur, er þetta tölfræði sem varla hæfir moldríkum fyrrum stjörnuleikmanni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×