Fótbolti

Totti hótar að segja sig úr leikmannasamtökunum

AFP

Francesco Totti, fyrirliði Roma á Ítalíu, hefur nú hótað að segja sig úr leikmannasamtökunum þar í landi vegna deilu í tengslum við það hvenær keppni hefst í A-deildinni í sumar. Deildin á að byrja 26. ágúst, eða seinna en flestar aðrar deildarkeppnir í Evrópu. Þetta segir Totti að komi niður á ítalska landsliðinu í undankeppni EM.

Deilan byrjaði í síðasta mánuði þegar nefnd fulltrúa liðanna í A- og B-deildunum ákvað að deildarkeppnin ætti að byrja þann 26. ágúst. Þetta þykir Roberto Donadoni landsliðsþjálfarar og fleirum vera glórulaus tímasetning og vilja þeir að deildin byrji fyrr, svo leikmenn séu komnir í góða æfingu fyrir landsleikina í september þegar Ítalir spila mikilvæga leiki við Frakka og Úkraínumenn.

"Ég er tilbúinn að segja mig úr leikmannasamtökunum til að mótmæla þessum ráðstöfunum og það er furðulegt að aldrei skuli vera hlustað á mennina sem þessar ráðstafanir snerta beint - leikmennina sjálfa," sagði Totti. Það er kominn tími til að við látum í okkur heyra. Við vildum byrja 19. ágúst og fá auka hvíld í kring um jólin í staðinn. Það hefði líka gert landsliðinu kleift að koma betur undirbúið inn í landsleikina í september. Þeir sem ákváðu að deildin hæfist 26. ágúst kæra sig kollótta um þarfir landsliðsþjálfarans," sagði Totti.

Ítalska A-deildin byrjar mun síðar en aðrar deildir á meginlandinu, en til samanburðar má nefna að deildin á Englandi hefst þann 11. ágúst og franska deildin hefst strax þann 4. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×