Erlent

Endeavour snýr aftur til jarðar

Bandaríska geimferjan Endeavour snýr aftur til jarðar í dag en heimför ferjunnar var flýtt um sólarhring vegna fellibylsins Dean. Áætlað er að ferjan lendi við Kennedy geimferðarmiðstöðina á Flórídaskaga um klukkan hálf fimm í dag að íslenskum tíma.

Geimferjunni var skotið á loft frá Flórída þann áttunda ágúst síðastliðinn. Upphaflega var gert ráð fyrir að ferðlagið tæki allt að hálfan mánuð en ákveðið var flýta heimförinni vegna fellibylsins Dean.

Endeavour tengdist alþjóðageimstöðinni þann tíunda ágúst en áhöfn ferjunnar hafði meðal annars það verkefni að halda áfram byggingu stöðvarinnar og gera við bilaða hluti.

Óttast um hitaskjöld ferjunnar
Áhöfn geimferjunnar gerði meðal annars við bilaða hluti í geimstöðinni.MYND/AFP

Óttast var á tímabili að hitaskildir ferjunnar hefðu skemmst í flugtaki. Dæld á hitaskildinum uppgötvaðist á ljósmyndum sem teknar voru stuttu eftir að ferjan tengdist geimstöðinni. Við nánari skoðun kom þó í ljós að skemmdirnar virtust aðeins vera á yfirborðinu og því kæmu þeir ekki í veg fyrir lendingu.

För Endeavour er önnur mannaða geimförin af fjórum sem bandaríska geimferðarstofnunin, NASA, áætlar á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×