Innlent

Reyndustu fjallamenn björgunarsveitanna leita á Virkisjökli

Matthias Hinz, einn tveggja Þjóðverja, sem er saknað.
Matthias Hinz, einn tveggja Þjóðverja, sem er saknað. MYND/365

Þyrla Landhelgisgæslunnar fer með morgninum til leitar að þýsku ferðamönnunum tveimur, sem saknað er. Björgunarsveitarmenn frá Höfn leituðu þeirra í grennd við Skaftafell og Vatnajökul í gær, án árangurs. 50 björgunarsveitarmenn hefja aftur leit klukkan níu.

Engar óyggjandi vísbendingar eru þó um að þeir séu á þessu svæði, en það er talið líklegt. Búið er að ganga úr skugga um að þeir hafi ekki farið úr landi með öðrum hætti en fyrirhugað var fyrir síðustu helgi.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu að í nótt hafi undanfarar úr björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu farið austur en þeim var ætlað að leita hluta Virkisjökuls en það svæði er erfitt yfirferðar og hættulegt. Undanfarahópa skipa reyndasta fjallabjörgunarfólk félagsins.

Veður hefur þó hamlað leit, en mikil rigning er í Skaftafelli og mjög lágskýjað. Bíða undanfararnir því færis á að komast á jökulinn. Hið sama er að segja um þyrlu Landhelgisgæslunnar sem áætlað var að færi austur fyrr í morgun en aðstæður gera leit úr lofti illmögulega á þessari stundu.

Aðrir þættir leitarinnar eru í fullum gangi auk þess sem verið er að kanna allar vísbendingar sem berast eftir því sem Landsbjörg segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×