Erlent

Fáránlega frábærir

Trommukjuðarnir vekja mikla lukku í partíum þar sem hægt er að búa til áhrifahljóð við brandara.
Trommukjuðarnir vekja mikla lukku í partíum þar sem hægt er að búa til áhrifahljóð við brandara. MYND/hörður

Elsa María Jakobsdóttir sjónvarpskona mætir alltaf með rafmagnskjuða í partí. „Ég sá kjuðana fyrst á www.iwantoneofthose.com þar sem eru margir frábærir og fáránlegir hlutir sem eru mispraktískir. Einar Baldvin vinur minn pantaði þá og gaf mér í jólagjöf," segir Elsa María Jakobsdóttir, umsjónarmaður í nýjum menningarþætti Sjónvarpsins sem heitir 07-08, bíó og leikhús.

Kjuðarnir heita á frummálinu „Rhythm sticks" og vekja mikla lukku bæði heima og í partíum að sögn Elsu. „Þetta eru svona feitir trommukjuðar sem ganga fyrir batteríum með takka fyrir bassatrommu, snerli eða „high hat"," segir Elsa, sem segir þá vera með hátalara og blikkandi ljós í takt. „Fólki finnst alltaf gaman að tromma með lögum og þá sérstaklega með eitístónlist," segir Elsa hlæjandi og bætir við: „Síðan er hægt að gera áhrifahljóð þegar einhver segir brandara."

Til að framkalla hljóð þarf að slá og veifa út í loftið. Þá nema þeir hreyfinguna og láta í sér heyra að sögn Elsu.Auk kjuðanna var Game Boy í miklu uppáhaldi hjá Elsu þegar hún var yngri og þá aðallega Tetrisspilið. Í seinni tíð hefur Bubble þó átt hug hennar og hjarta. „Ég hef verið mjög illa haldin eftir langar lotur í Bubble. Til dæmis var ég í Smáralind síðustu jól og langaði bara að skjóta niður jólakúlurnar. Þess vegna reyni ég að hemja mig núna og spila minna. Ég spila heldur aldrei í vinnunni, ég lofa," segir Elsa hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×