Fótbolti

Adriano á ekki sjö dagana sæla

Elvar Geir Magnússon skrifar
Adriano var ekki valinn í Meistaradeildarhóp Inter.
Adriano var ekki valinn í Meistaradeildarhóp Inter.

Brasilíski sóknarmaðurinn Adriano er úti í kuldanum hjá Ítalíumeisturum Inter. Þessi stóri og stæðilegi leikmaður var ekki valinn í leikmannahóp Inter fyrir Meistaradeild Evrópu og mun að öllum líkindum skipta um lið í janúar.

David Suazo, Zlatan Ibrahimovic, Julio Cruz og Hernan Crespo eru allir á undan Adriano í forgangsröðinni. Þrátt fyrir að Adriano hafi óskað eftir því að fá að fara þá neitaði Inter tilboði frá West Ham í leikmanninn. Massimo Moratti, forseti Inter, hefur þó trú á Adriano.

„Hann mun leika sitt hlutverk hjá okkur. Hann hefur staðið sig vel á æfingum að undanförnu og á framtíð hjá Inter," sagði Moratti.

Adriano er 25 ára en hann átti í miklum erfiðleikum á síðasta tímabili. Hann komst oftar í fréttirnar fyrir líf sitt utan vallarins en innan hans. Hann viðurkenndi meðal annars að eiga í erfiðleikum vegna áfengisneyslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×