Fótbolti

Öll spjót beinast að Donadoni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Roberto Donadoni.
Roberto Donadoni.

Roberto Donadoni, landsliðsþjálfari Ítalíu, segist ekki finna fyrir neitt meiri pressu en venjulega fyrir leikinn gegn Úkraínu á miðvikudag. Ítalska landsliðið þarf nauðsynlega á sigri að halda. Þjálfarinn hefur verið harkalega gagnrýndur af ítölskum fjölmiðlum í aðdraganda leiksins.

Ítalía gerði markalaust jafntefli gegn Frakklandi og er nú í þriðja sæti síns riðils í undankeppni EM. Tvö efstu liðin komast áfram og því er að duga eða drepast fyrir ítalska liðið í leiknum á morgun.

„Það eru gerðar kröfur um að við vinnum hvern einasta leik. Allir leikir eru mikilvægir. Þetta verður erfiður leikur en við mætum til leiks til að sigra og munum gera allt til þess að það verði að veruleika," sagði Donadoni.

Donadoni hefur verið mikið gagnrýndur fyrir val sitt í liðið, leikkerfi og skort á reynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×