Fótbolti

Er skoskur fótbolti betri en franskur?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Rangers fagna einu marka sinna gegn Lyon í gær.
Leikmenn Rangers fagna einu marka sinna gegn Lyon í gær. Nordic Photos / Getty Images

Skotar halda nú vart vatni yfir gengi Glasgow Rangers í Meistaradeildinni sem og skoska landsliðsins í undankeppni EM 2008.

3-0 sigur Rangers á Lyon í gær var fyllilega verðskuldaður. Rangers situr nú á topp E-riðils Meistaradeildarinnar með sex stig, rétt eins og Barcelona sem er reyndar með betra markahlutfall.

Lyon er á botninum ásamt Stuttgart en bæði lið eru án stiga. 

Þá eru Skotar enn að jafna sig á ótrúlegum 1-0 útisigri skoska landsliðsins á því franska í undankeppni EM 2008. Skotar unnu einnig Frakka á heimavelli í sömu keppni.

Skotar eru á toppi B-riðils undankeppninar, með 21 stig. Heimsmeistarar Ítalíu koma næstir með tuttugu stig og Frakkar eru með nítján. Öll liðin hafa leikið níu leiki.

„Sigur Rangers er engin tilviljun eftir sigur landsliðsins í Frakklandi,“ sagði David Edgar, talsmaður stuðningsmannafélags Rangers.

„Menn verða einfaldlega að kyngja því að skoskur fótbolti er betri en sá franski.“

Þetta var stærsti útisigur Rangers í Meistaradeildinni frá upphafi og fyrsti sigur liðsins utan Glasgow í keppninni í sjö ár.

„Ég er algerlega orðlaus á þessari stundu,“ sagði Edgar. „Þetta var súrrealískt. Það er best að lýsa því þannig.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×