Fótbolti

Totti varar Ronaldo við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Totti í baráttu við Rio Ferdinand og Michael Carrick í gær.
Totti í baráttu við Rio Ferdinand og Michael Carrick í gær. Nordic Photos / Getty Images

Francesco Totti hefur sent Cristiano Ronaldo tóninn eftir leik Manchester United og Roma í Meistaradeildinni í gær.

Eins og kom fram hér á Vísi greindi Ronaldo frá því að leikmaður Roma hafi grátbeðið hann um að hætta að sækja svo grimmt á Rómverjana í 7-1 sigri United í apríl síðastliðnum. 

Ronaldo þurfti að yfirgefa völlinn í gær eftir að hann fékk skurð í andlitið eftir olnbogaskot Mirko Vucinic. Það sást þó greinilega á sjónvarpsmyndum að það var óviljaverk og Totti ítrekar það.

„Við sögðum ekkert við Ronaldo eftir ummæli hans síðustu daga,“ sagði Totti. „Olnbogaskotið hjá Vucinic var slys en nú þarf hann að koma til okkar á Olimpico ...“

Rómverjar voru óheppnir að fá ekki meira úr leiknum sem lauk með 1-0 sigri United.

„Við spiluðum mun betur nú en á síðasta tímabili. Við stjórnuðum spilinu og hefðum meira að segja átt að fá vítaspyrnu. Við áttum ekki skilið að tapa.“

Liðin mætast í Róm þann 12. desember. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×