Íslenski boltinn

Atli Viðar: Held með Fjölni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Viðar Björnsson á fleygiferð með Fjölni í sumar.
Atli Viðar Björnsson á fleygiferð með Fjölni í sumar. Mynd/Pjetur

Atli Viðar Björnsson, leikmaður FH sem var í láni hjá Fjölni í sumar, segist ætla að styðja Fjölnismenn í bikarúrslitaleik liðanna á morgun.

„Þrátt fyrir að ég sé mikill FH-ingur og er samningsbundinn FH hlýt ég að halda með Fjölni á morgun. Ég hef spilað með liðinu í þessari keppni og geri ráð fyrir því að fá þau verðlaun sem Fjölnir hlýtur eftir leikinn,“ sagði Atli Viðar við Vísi.

Atli Viðar og Heimir Snær Guðmundsson voru báðir lánaðir frá FH til Fjölnis í sumar. Lánssamningurinn kveður á um að þeir megi ekki leika gegn FH á samningstímanum.

„Okkur stóð til boða að æfa með Fjölni þessa vikuna en ég hefði bara verið að kvelja mig með því. Ég ákvað því að draga mig til hliðar. Þessi vika hefur því verið mjög sérstök. Ég hef reynt að dreifa huganum en það hefur gengið frekar illa.“

Hann segir það auðvitað vera hundfúlt að missa af þessum leik.

„Ég var svekktur vegna ákvörðun FH-inga um að láta samninginn standa en er þó ekki fúll út í einn eða neinn. Ég skil þeirra afstöðu.“

Atli Viðar fer vitanlega á leikinn á morgun en hefur ekki enn ákveðið hvar hann muni sitja.

Hann hefur heldur ekki leitt hugann að því hvað verður á næsta tímabili. „Ég er samningsbundinn FH í eitt ár í viðbót og mun að sjálfsögðu standa við hann.“

FH seldi Atla Viðar til Fram á lokadegi félagaskiptagluggans í sumar en hann hafnaði því að fara til Fram.

„Það var einfaldlega vegna þess að ég fékk að vita af þessu klukkan hálf ellefu að kvöldi 31. júlí. Ég hafði engan tíma til að semja við neitt lið á þeim tíma. En ég veit ekki hvort FH hafi enn áhuga á að selja mig.“ 


Tengdar fréttir

Vísir hitar upp fyrir bikarúrslitin

Á laugardaginn mætast lið FH og Fjölnir í bikarúrslitaleik karla. Vísir mun næstu daga fjalla ítarlega um leikinn.

Tryggvi: Var að losna í bikarskápnum

Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH, á ekki von á því að sínir menn rúlli yfir Fjölnismenn í bikarúrslitaleiknum á morgun.

Ásmundur: Alltaf möguleiki

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, segir að sínir menn þurfi að ná sínum besta leik til að eiga möguleika gegn FH-ingum í bikarúrslitaleiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×