Viðskipti erlent

Harry Potter galdraði fram hagnað hjá Amazon.com

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi netverslunarinnar Amazon.com.
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi netverslunarinnar Amazon.com. Mynd/AFP

Bandaríska netverslunin Amazon.com tók inn 80 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 4,9 milljarða íslenskra króna, í hagnað á þriðja ársafjórðungi sem er fjórfalt meira en á sama tíma í fyrra. Mestu munar um afar góða sölu á nýjustu og síðustu bókinni í flokknum um ævintýri galdrastráksins Harry Potter, sem rauk út eins og heitar lummur.

Tekjur netverslunarinnar námu 3,26 milljörðum dala, sem er 41 prósenti meira en í fyrra. Gert er ráð fyrir að jólaverslunin, sem kemur inn í bækur Amazon á fjórða ársfjórðungi, skili á bilinu 5,1 til 5,45 milljörðum bandaríkjadala.

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon.com, sagði í gær, að verslunin myndi að öllum líkindum ekki hagnast á sölu bókarinnar þar sem mikill afsláttur hafi verið veittur auk þess sem flutningskostnaður hafi færst á reikning verslunarinnar en ekki viðskiptavina.

„Í okkar huga skiptir það höfuðmáli að setja viðskiptavininn í fyrsta sæti," sagði hann og benti á að það hefði skilað sér í mikilli virðisaukningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×