Innlent

Bruninn á Grettisgötu: Eigandinn vaktaði húsið

Breki Logason skrifar
Af vettvangi við Grettisgötu 61 í nótt. Myndina tók Birkir Jónsson
Af vettvangi við Grettisgötu 61 í nótt. Myndina tók Birkir Jónsson

Sigurður Ólason eigandi Grettisgötu 61 sem kviknaði í í nótt segist sjálfur hafa vaktað húsið í vikunni. Hann sagði i leigjendum upp um mánaðarmótin og enginn hefur verið í húsinu síðan um helgina.

„Upphaflega var þetta hústaka en fólkið fékk að vera þarna áfram gegn einhverri smá greiðslu. Síðan voru nágrannar farnir að kvarta og lögreglan hafði samband við mig. Þá kom ég þessu fólki bara út," segir Sigurður en þetta mun hafa verið um síðustu helgi.

„Húsið var vaktað af bæði mér og lögreglunni. Ég og menn frá mér komu þarna á ákveðnum tímum til þess að sjá til þess að enginn væri í húsinu," segir Sigurður sem vill segist ekkert vita um hvort kveikt hafi verið í húsinu. „Þarna kviknaði bara í og meira vitum við ekki á þessari stundu. Það getur vel verið að einhver viðurkenni að hafa kveikt í og þá er það bara svoleiðis."

Sigurður segir húsið hafa verið á sölu á 42 milljónir. „Fólk talar um að menn kveiki í húsinu sínu til þess að græða peninga. Brunabótamatið á húsinu er ekki nema 17 milljónir þannig að það græðir enginn á þessu, þetta er alltaf skaði."

Lögreglan rannsakar nú málið og hefur ekki útilokað að um íkveikju sé að ræða.

Í dag hefur því verið fleygt fram að um fíkniefnauppgjör sé að ræða en Sigurður segist ekkert vita um það. „Það sést strax hvort það hafi verið kveikt viljandi í húsinu og það er alveg jafn leiðinlegt og hvað annað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×