Erlent

Dýrkeypt gæludýr

Óli Tynes skrifar
Kakadúi í tré.
Kakadúi í tré.

Einn maður lét lífið og annar slasaðist alvarlega þegar þeir reyndu að ná kakadúa niður úr tré í Ástralíu. Kakadúi er skrautlegur fugl af ætt páfagauka.

Umræddur kakadúi var gæludýr 72 ára gamals manns. Hann hafði sloppið úr búri sínu að kvöldlagi og sest á trjágrein.

Eigandinn klifraði upp eftir honum en datt úr trénu og slasaðist alvarlega. Hann var fluttur á brott í sjúkrabíl.

Tæplega sextugur nágranni ákvað þá að bjarga málinu og klifraði eftir fuglingum. Hann datt líka úr trénu og lést samstundis.

Reuters fréttastofan hefur eftir Peter Gilmore, lögreglufulltrúa að þetta hafi bara verið sorglegt slys. Í frétt Reuters er ekki sagt hvað varð um kakadúann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×