Fótbolti

Eiður Smári sagður taka stöðu Henry í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári tekst hér á við Aitor, leikmann Recreativo, um helgina.
Eiður Smári tekst hér á við Aitor, leikmann Recreativo, um helgina. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen verður í fremstu víglínu Barcelona í kvöld er liðið mætir Lyon í Meistaradeild Evrópu ef marka má spænska íþróttaritið Marca.

Thierry Henry fór ekki með Barcelona til Lyon þar sem hann á við smávægileg meiðsli að stríða. Ronaldinho er hins vegar orðinn leikfær á ný en hann missti af leiknum við Reacreativo um helgina.

Samkvæmt Marca verður Ronaldinho á sínum stað á vinstri kantinum og Messi á hægri kantinum. Eiður Smári verður fremstur og miðjan verður sem fyrr skipuð þeim Iniesta, Yaya Toure og Xavi.

Milito og Puyol verða miðverðir, Zambrotta í hægri bakverði og Abidal í þeim vinstri. Valdés verður sem fyrr í marki Börsunga.

Barcelona tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar með sigri á Lyon í kvöld og um leið sigur í riðlinum. Rangers gæti aðeins jafnað Barcelona á stigum og gildir þá aðeins árangur í innbyrðis viðureignum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×