Fótbolti

Mourinho sagður á leið til AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea. Nordic Photos / AFP

Gazetta dello Sport segir það fullvíst að Jose Mourinho verði næsti knattspyrnustjóri Evrópumeistara AC Milan.

Blaðið segir að Mourinho hafi hafnað því að gerast næsti landsliðsþjálfari Englands og að ástæðan fyrir því sé sú að hann sé á leið til AC Milan.

Carlo Ancelotti er á sínu sjöunda ári með liðið en talið er að hann muni hætta þegar tímabilinu lýkur í vor. AC Milan hefur ekki náð sér á strik í deildinni í vetur og situr í tíunda sæti hennar með átján stig eftir þrettán leiki. Liðið er sautján stigum á eftir toppliðinu og erkifjendunum í Inter.

Þá greinir blaðið einnig frá því að ef Ítalir standa ekki undir væntingum á EM í sumar muni Roberto Donadoni hætta sem landsliðsþjálfari og Ancelotti taka við honum.

En ef að það gerist ekki er einnig talið líklegt að Ancelotti verði næsti þjálfari Barcelona - sem reyndar Mourinho hefur einnig verið orðaður sterklega við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×