Innlent

Krúnukúgarinn neitaði og þarf að bíða fram yfir páska

Breki Logason skrifar
Paul Adalsteinsson
Paul Adalsteinsson

Í dag var íslenska krúnukúgaranum, Paul Adalsteinssyni, birt ákæra í tengslum við meinta kúgun hans á meðlim konungsfjölskyldunnar. Hann neitaði meintri fjárkúgun en mál hans verður tekið fyrir í apríl á næsta ári.

Paul mætti ekki fyrir dómara í dag heldur var hann í beinu sambandi á sjónvarpsskjá frá Old Bailey fangelsinu sem hann situr í. Dómarinn birti honum ákæruna sem var á þá leið að hann hefði reynt að kúga 50.000 pund út úr meðlimi fjölskyldunnar. Eins og áður segir neitaði Paul þessum ásökunum. Réttarhöldin tóku um klukkutíma.

Paul er ákærður ásamt félaga sínum Sean McGuigan en þeir töluðu báðir frá sitthvoru fangelsinu í dag. Það eina sem þeir sögðu var nafn sitt og að þeir neituðu að hafa kúgað konungsfjölskylduna.

Íslendingurinn ásamt lögmanni sínum Giovanni di Stefano hafa gagnrýnt málið mikið undanfarið. Meðal annars hafa þeir bent á hversu fjarstæðukennt það sé að hinn umdeildi meðlimur fjölskyldunnar skuli ekki bera vitni í málinu. Þar sem miðpunktur málsins sé jú þessi ágæti maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×