Erlent

Eins og 150 sólir spryngju - jörðin væri horfin

Óli Tynes skrifar

Stjörnufræðingar hafa náð myndum af stærstu og skærustu sprengistjörnu sem þeir hafa nokkru sinni séð. Stjarnan sem sprakk er 150 sinnum stærri en sólin. Kraftinn er hreinlega ekki hægt að ímynda sér. Sem betur fer er stjarnan 240 milljón ljósár frá jörðinni, og hún því ekki í neinni hættu.

Ef þessi stjarna hefði verið þar sem sól jarðarinnar er, þegar hún sprakk, væri jörðin hreinlega horfin.

Stjarnan fannst á síðasta ári og síðan hafa allir stórir stjörnustjónaukar heimsins beinst að henni. Þessi deyjandi stjarna gengur undir nafninu SN2006gy. Myndir af henni voru þó ekki birtar fyrr en í gær. Nathan Smith, sem stjórnar skoðun stjörnunnar við háskólann í Kaliforníu segir að hún sé fimm sinnum bjartari en nokkur sprengistjarna sem þeir hafi séð.

"Hún er bara svo miklu stærri en allt annað. Það er lamandi að fylgjast með þessu," segir hann.

Sævar Helgi Bragason, eðlisfræðingur, segir um sprengistjörnur: Sprengistjörnur (e. supernova) eru meðal mestu hamfara sem þekkjast í alheiminum. Orkan sem losnar úr læðingi þegar stjarna springur er hrikaleg og sést það best á því að við sprenginguna verður stjarnan jafn björt eða bjartari en heil vetrarbraut.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá tölvugerðan myndbút af því þegar sprengistjarnan sprakk. Á eftir því ræða vísindamenn NASA um stjörnuna og möguleikann á því að önnur stjarna, Chandra, verði að sprengistjörnu. Chandra er mun nær jörðinni en SN2006gy en þó svo hún myndi springa kæmi ekkert fyrir jörðina. Fólk sem býr á suðurhveli jarðar gæti þó séð fegurðina berum augum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×