Viðskipti innlent

Vörður samfélagsins

Spákaupmaðurinn á horninu skrifar

Nú er heldur betur líf í tuskunum hjá sparisjóðunum eftir að SPRON ákvað að breyta sér í hlutafélag. Byr er á sama tíma að gleypa SPK og brátt verður Sparisjóður Norðlendinga runninn inn í Byr. Litlu sparisjóðirnir sjá auðvitað að þetta gengur ekki lengur, aðstæður eru með þeim hætti að þeir keppa ekki við þá stóru um kúnna sem verða stærri og stærri.

Ekki sakar heldur að stofnfjáreigendurnir eru komnir með gullglampa í augun og sjá allt í einu að rykfallin stofnfjárbréf þeirra, sem eitt sinn höfðu það eitt að verðgildi að vera aðgöngumiði á kokkteila á aðalfundum, eru nú jafnvel tugmilljóna króna virði.

Ég er löngu búinn að kaupa stofnfjárbréfin af forríkum frænda mínum, útgerðarkarlinum í Keflavík, og sjá þau margfaldast á skömmum tíma. Það er ekki laust við að samskipti okkar hafi versnað í seinni tíð.

Ekki gekk eins vel að narra bréfin af aldraðri móðursystur minni sem býr vestur á fjörðum. Þegar ég falaðist eftir bréfum hennar í Sparisjóði Vestfirðinga sló hún sér á lær og spurði hvort ég væri genginn af göflunum. Það kæmi ekki til greina að selja aurapúkanum úr Reykjavík bréfin, enda hefði fjármagnið í Reykjavík engan skilning á atvinnuháttum á landsbyggðinni. Hún benti á að sem stofnfjáreigandi hefði hún ríkum skyldu að gegna sem táknrænn ábyrgðaraðili samfélagsins.

En svona er þetta. Þeir fiska sem róa.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×