Innlent

Fimm þúsund látast daglega af vatnsskorti

Konur sækja vatn í brunn í Guineu-Bissau.
Konur sækja vatn í brunn í Guineu-Bissau. MYND/Getty Images

Í dag er alþjóðlegur dagur vatnsins. Talið er að um fimm þúsund börn láti lífið daglega vegna skorts á hreinu drykkjarvatni. Í tilefni dagsins mun Samorka, samtök orku-og veitufyrirtækja, standa fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu. Þar verða leiddir saman íslenskir fagaðilar í vatns- og fráveitumálum og aðilar með áhuga á þróunaraðstoð erlendis.

Sameinuðu þjóðirnar völdu daginn til baráttu gegn vatnsskorti í samræmi við Þúsaldarmarkmið samtakanna. Þau eru að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims í markvissu alþjóðlegu samstarfi. Aðgengi að hreinu vatni er þar ofarlega á lista.

 

Fjöldi aðila mun flytja erindi á ráðstefnunni. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun fjalla um stefnu stjórnvalda í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Samorka mun einnig afhenda Hjálparstarfi kirkjunnar styrk til byggingar fjögurra brunna í Afríku. Þeir munu sjá allt að fjögur þúsund manns fyrir aðgangi að hreinu neysluvatni.

Íslendingar búa við gott aðgengi að hreinu vatni og mikla þekkingu á nýtingu þess. En einungis 100 ár eru síðan taugaveiki var útbreidd á Íslandi en það var fyrir tilkomu vatns- og fráveitulagna.

Íslensk þróunaraðstoð hefur beinst að aðstoð við að efla aðgengi að hreinu vatni í þróunarríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×