Erlent

Segja helming árásarmanna koma frá Sýrlandi

Frá vettvangi sprengjuárásar í Sadriya-hverfinu í Bagdad í gær. Þar létust 135 og hundruð særðust þegar flutningabíll með eitt tonn af sprengiefni var sprengdur í loft upp á fjölförnum markaði.
Frá vettvangi sprengjuárásar í Sadriya-hverfinu í Bagdad í gær. Þar létust 135 og hundruð særðust þegar flutningabíll með eitt tonn af sprengiefni var sprengdur í loft upp á fjölförnum markaði. MYND/AP

Íröksk stjórnvöld segja að helmingur þeirra andófsmanna úr röðum súnnía sem staðið hafi fyrir sprengjuárásum að undanförnu í Írak hafi komið frá Sýrlandi. Segjast yfirvöld í Írak jafnframt hafa sýnt sýrlenskum stjórnvöldum sannanir þar að lútandi.

Bandaríkjamenn hafa áður sakað sýrlensk stjórnvöld um að skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn sem geri árásir í Írak og nú hafa íröksk stjórnvöld tekið undir þær ásakanir.

Sýrlensk stjórnvöld hafa sagt að þau geri sitt besta til þess að hafa eftirlit með landamærunum að Írak en því hafnar talsmaður íröksku ríkisstjórnarinnar. Hann segir Sýrlendinga búa yfir öflugri leyniþjónustu sem sjái til þess að enginn komist yfir Gólanhæðir á vesturlandamærum Sýrlands en öðru máli gegni um landamærin að Írak í austri.

Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, segir að tekið verði hart á stuðningsmönnum Saddams Husseins, fyrrverandi forseta landsins, og súnnískum uppreisnarmönnum sem staðið hafi fyrir árásum í landinu, síðast í gær þar sem 135 létu lífið í hverfi sjía í Bagdad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×