Menning

Bláminn indigo

Guð sér um vini mína – ég sé um óvini mína. Dúkristur af föngum á Litla-Hrauni eftir Sigríði Ólafsdóttur munu vekja nokkra eftirtekt.
Guð sér um vini mína – ég sé um óvini mína. Dúkristur af föngum á Litla-Hrauni eftir Sigríði Ólafsdóttur munu vekja nokkra eftirtekt.

Þjóð sem klæðir sig árið um kring í bláar gallabuxur ætti ekki að kippa sér upp við að myndlistarmenn setji saman sýningu með yfirskriftinni Indigo. Á hverju ári er baðmullin í gallabuxunum lituð blá með tilbúnum indigo-lit sem hefur um langt árabil tekið við af hinum forna dimmbláa lit.

Indigo var hátt skrifaður meðal fornþjóða Indlandsskagans og Kína. Þótt litarar Kínverja og Indverja hafi fundið margar leiðir til að skapa þennan sterkbláa lit er sjaldgæft að takast á við hann í hreinu formi: túregar á svæðinu í jaðri Sahara kunna það enn og þar táknar hann auð, þar er hann svo sterkur að hann smitast á húð manna og þeir fá á sig bláan tón.

Hópur myndlistarmanna með formleg sýningarsamtök – stundum kallaðir málarahópurinn Gullpensillinn – hefur sett saman sýningu sem opnar í Gerðarsafni í dag og þau hafa valið sér yfirskriftina Indigo. Verður sýningin uppi til 11. febrúar. Þau eru tíu saman að þessu sinni, en eru í losaralegu mengi sínu meira, raunar helstu málarar landsins undir miðjum aldri, hópurinn sem kom fram og reis hljóðlega gegn ríkjandi stefnuleysi og sundrungu og tók að mála á ný.

Þetta eru þeir Daði Guðbjörnsson, Helgi Þorgils, Eggert Pétursson, Ransu, Birgir Snæbjörn, Jóhann Lúðvík, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Sigtryggur Bjarni og Sigurður Árni. Þessi sýning er búin að vera tvö ár í uppsiglingu og gefur Gerðarsafn út myndarlega sýningarskrá með stuðningi Mile-stone.

Verkin eru öll miðuð útfrá indigo-bláum. Þau eru svo ólík sem þau eru mörg: leiðiþemað er bara liturinn og hann reynist óhemju öflugur að halda öllu saman. Myndefnið er af ýmsum toga: fangar á Litla-Hrauni, blómamyndir Eggerts, leikföng fyrir Indigo-börnin, kunnuglegri þemu frá Helga Þorgils og Kristínu Gunnlaugsdóttur.

Í myndarlegri sýningarskránni gerir Auður Ólafsdóttir listfræðingur litla grein fyrir litnum og tengslum hans hér á landi og í stærra samhengi vestrænnar myndlistarsögu og þá er ekki tæpt á blúsnum, bláum mánudögum, næturblámanum og bláum augum þínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.