Fótbolti

Man. Utd. gefur ekkert eftir

Yossi Benayoun fagnaði öðru marki sínu gegn Fulham í dag ógurlega en það dugði ekki til sigurs.
Yossi Benayoun fagnaði öðru marki sínu gegn Fulham í dag ógurlega en það dugði ekki til sigurs. MYND/Getty

Manchester United og Chelsea unnu bæði góða sigra í leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Man. Utd. átti ekki í erfiðleikum með Aston Villa á heimavelli sínum og vann 3-1 og þá spilaði Chelsea sinn besta leik í langan tíma þegar það lagði Wigan af velli, 4-0. Íslendingaliðið West Ham missti unnin leik niður í jafntefli á síðustu stundu.

Segja má að úrslitin í viðureign Man. Utd. og Aston Villa hafi ráðist í fyrri hálfleik því eftir 35. mínútna leik var staðan orðin 3-0. Ji-Sung Park, Michael Carrick og Cristiano Ronaldo skoruðu mörkin. Man. Utd. er nú komið með 57 stig eftir 23 leiki á toppnum en Chelsea kemur í öðru sæti, sem fyrr sex stigum á eftir þeim rauðklæddu.

Chelsea vann í dag Wigan 4-0 á heimavelli sínum þar sem Frank Lampard skoraði í fyrri hálfleik en mörk frá Arjen Robben og Didier Drogba auk sjálfsmarks frá Chris Kirkland innsigluðu öruggan sigur. Liverpool er sem fyrr í þriðja sæti eftir sigur á Watford fyrr í dag en Bolton, sem er í fjórða sæti, náði aðeins markalausu jafntefli á heimavelli sínum gegn Man. City í dag.

Eggert Magnússon og lærisveinar hans hjá West Ham voru súrir á svip eftir að hafa misst unnin leik niður í jafntefli á síðustu andartökum leiks síns gegn Fulham í dag. Það var Philippe Christanval sem skoraði jöfnunarmarkið en áður hafði Yossi Benayoun komið West Ham í 3-2 með tveimur mörkum. West Ham er með 17 stig í þriðja neðsta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Wigan sem er í 17. sæti. Heiðar Helguson lék fyrstu 65. mínútur leiksins.

Ófarir Hermanns Hreiðarssonar og félaga í Charlton halda áfram og í dag steinlá liðið á heimavelli gegn Middlesbrough, 1-3. Hermann lék allan leikinn fyrir Charlton, sem situr í næst neðsta sæti deildarinnar með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×