Innlent

Bjarni Ármannsson hættir hjá Glitni

Bjarni Ármannsson lét í dag af störfum sem forstjóri Glitnis í kjölfar valdatöku nýs meirihluta í bankanum. Við starfinu tekur Lárus Welding, sem kemur frá Landsbankanum í London. Bæði Bjarni og nýr stjórnarformaður bankans, Þorsteinn M. Jónsson, neita því að Bjarni hafi verið rekinn. Bjarni lýsti því yfir í fréttaviðtölum um páskana, þegar fyrir lá að nýir eigendur væru að koma inn, að hann hefði í hyggju að halda áfram.

Á hluthafafundi Glitnis í dag var ný stjórn sjálfkjörin en þar með hættu fimm af sjö stjórnarmönnum, þeirra á meðal stjórnarformaðurinn Einar Sveinsson og varaformaðurinn Karl Wernersson. Þeir fóru fyrir hópi hlutahafa sem seldi fjórðungs hlut í bankanum en nýir valdhafar undir forystu Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ákváðu að fela Þorsteini M. Jónssyni að stýra nýrri stjórn. Fyrsta verk hennar var að ráða nýjan forstjóra, hinn þrítuga Lárus Welding, sem verið hefur framkæmdastjóri Landsbankans í London en var áður með Bjarna Ármannssyni í FBA og Íslandsbanka, en Bjarni lætur nú af störfum aðeins 39 ára gamall, eftir tíu ára starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×