Fótbolti

Schalke tapaði óvænt á heimavelli

Leikmenn Leverkusen fagna sigrinum á Schalke í dag.
Leikmenn Leverkusen fagna sigrinum á Schalke í dag. MYND/Getty

Topplið þýsku úrvalsdeildarinnar, Schalke, mátti þola að bíða í lægri hlut á heimavelli sínum gegn Bayer Leverkusen í dag, 0-1. Þeim til happs náðu helstu keppinautarnir í Werder Bremen aðeins jafntefli gegn Borussia Moenchengladbach og er því forysta liðsins á toppnum áfram fimm stig.

Schalke var miklu sterkari aðilinn í leiknum gegn Leverkusen í dag en eindæmur klaufaskapur í bland við frábæra frammistöðu markvarðar Leverkusen varð þess valdandi að liðið náði ekki að skora. Það var Stefan Kiessling sem skoraði sigurmarkið í leiknum.

Lokatölur hjá Bremen og Moenchengladbach urðu 2-2 en rétt eins og hjá Schalke var það slæm nýting upp við mark andstæðinganna sem varð Bremen að falli. Liðið er nú í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Stuttgart sem er með 45 stig í öðru sæti. Schalke er með 49 stig á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×