Fótbolti

Emil meðal bestu nýliða á Ítalíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil er hér á fullri ferð í leik með Reggina.
Emil er hér á fullri ferð í leik með Reggina. Nordic Photos / Getty Images

Gazetta dello Sport, stærsta íþróttarit Ítalíu, hefur útnefnt Emil Hallfreðsson, leikmann Reggina, sem einn af ellefu bestu nýliðum ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Emil gekk í sumar til liðs við Reggina frá Lyn í Noregi en þar áður lék Emil með Tottenham þar sem hann fékk að vísu engin tækifæri.

Hann hefur spilað alla leiki Reggina til þessa á tímabilinu og fengið góða dóma fyrir.

Emil er í sjöunda sæti í einkunnagjöf blaðsins yfir þá 161 leikmann sem ítölsku úrvalsdeildarliðin keyptu í sumar.

Úrvalslið bestu nýliðanna er þannig skipað samkvæmt leikkerfinu 4-3-3:

Mark: Polito (Catania).

Vörn: Rubin (Torino), Loria (Siena), Juan (Roma), Chivu (Inter).

Miðja: Foggia (Cagliari), Emil Hallfreðsson (Reggina), Hamsik (Napoli).

Sókn: Boriello (Genoa), Iaquinta (Juventus), Lavezzi (Napoli).

Blaðið lét einnig fylgja úrvalslið lélegustu leikmannanna, hin svokölluðu „flopp":

Mark: Muslera (Lazio).

Vörn: Scaloni (Lazio), Natali (Torino), Criscito (Juventus), Stadsgaard (Reggina).

Miðja: Tiago (Juventus), Meghni (Lazio), Zenoni (Parma).

Sókn: Tullberg (Reggina), Tristan (Livorno), Bjelanovic (Torino).

Á þessu má sjá að Danirnir sem gengu til liðs við Reggina fyrir tímabilið, þeir Kris Stadsgaard og Mike Tullberg, hafa ekki þótt standa sig eins vel og Emil.

Stadsgaard kom frá Nordsjælland og Tullberg frá AGF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×