Innlent

Jón Baldvin ekki á lista Samfylkingarinnar

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, verður ekki á framboðslista Samfylkingarinnar. Boð um að hann tæki heiðurssæti á lista flokksins í Reykjavík var, að sögn Jóns Baldvins, dregið til baka í samtali sem þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir áttu í kjölfar Silfurs Egils í síðasta mánuði.

Samfylkingin hefur nú gengið frá öllum framboðslistum sínum fyrir komandi þingkosningar og vekur athygli að nafn Jóns Baldvins Hannibalssonar er þar hvergi að finna. Það hefur lengið tíðkast hérlendis að fyrrverandi stjórnmálaleiðtogar, sem sest hafa í helgan stein, skipi heiðurssæti á lista þess flokks sem þeir fylgja að málum. Því hefðu margir búist við að Jón Baldvin yrði í slíku sæti enda var hann sem formaður Alþýðuflokksins og ráðherra helsti leiðtogi jafnaðarmanna um árabil. Þannig skipar gamall samherji hans, Jón Sigurðsson, eitt af heiðurssætum á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Í Silfri Egils í síðasta mánuði hótaði Jón Baldvin hins vegar um nýju framboði.

Jón Baldvin sagði í samtali við Stöð 2 í dag að sér hafi um áramótin verið boðið að taka heiðursæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Segir Jón Baldvin að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi hins vegar dregið það boð til baka á fundi sem þau áttu í kjölfar sjónvarpsþáttarins Silfurs Egils. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í dag aðspurð um samskipti þeirra tveggja að ekkert boð hefði verið afturkallað og þátturinn Silfur Egils hefði ekkert með þetta að gera. Hvorki Jón Baldvin né Ingibjörg Sólrún vildu í dag að ræða málið nánar í sjónvarpsviðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×