Enski boltinn

Auðvelt hjá Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Denilson fagnar þriðja marki Arsenal í kvöld.
Denilson fagnar þriðja marki Arsenal í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal vann í dag 3-0 sigur á Newcastle á ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Robin van Persie skoraði tvö fyrstu mörk liðsins og Denilson það þriðja.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, gerði þrjár breytingar á liðinu sem vann Twente í forkeppni Meistaradeildarinnar í vikunni. Kolo Toure, Emmanuel Eboue og Emmanuel Adebayor voru allir komnir í byrjunarliðið á nýjan leik.

Joey Barton var á bekknum hjá Newcastle en Michael Owen var fyrirliði Newcastle í sínum fimmtugasta leik með liðinu.

Arsenal hafði mikla yfirburði í leiknum og komst yfir á átjándu mínútu er vítaspyrna var dæmd á Charles N'Zogbia fyrir að handleika knöttinn innan teigs. Robin van Persie skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Van Persie skoraði svo annað mark Arsenal eftir glæsilegt samspil við Eboue og Adebayor. Sá síðarnefndi átti stoðsendinguna með hælsendingu og Van Persie afgreiddi knöttinn í netið.

Denilson skoraði svo síðasta mark leiksins og aftur eftir glæsilegt samspil leikmanna Arsenal. Í þetta sinn voru það Samir Nasri og Adebayor sem spændu sig í gegnum vörn Newcastle og Denilson skoraði úr fremur þröngu færi.

Joey Barton kom svo inn á sem varamaður undir lok leiksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×