Fótbolti

Rangers úr leik í Meistaradeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Thomas, leikmaður Rangers.
Kevin Thomas, leikmaður Rangers. Nordic Photos / AFP

Það urðu heldur betur óvænt tíðindi í forkeppni Meistardeildar Evrópu í dag er skoska stórliðið Glasgow Rangers varð að játa sig sigrað fyrir FBK Kaunas frá Litháen.

Fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli á heimavelli Rangers en Kaunas vann í dag 2-1 sigur á Rangers í Litháen. Sigurmarkið kom fjórum mínútum fyrir leikslok en Linas Pilibaitis var þar að verki.

Kevin Thomson kom Rangers yfir á 33. mínútu en Nerijus Radzius jafnaði metin með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.

Walter Smith, þjálfari Rangers, reyndi að verja stigið frekar en að skora annað mark eftir þetta en vörn liðsins náði ekki að halda markinu hreinu í síðari hálfleik.

Rangers komst í úrslit UEFA-bikarkeppninnar í vor þar sem liðið tapaði fyrir Zenit St. Pétursborg frá Rússlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×