Hún ískrar Þórðargleðin í Hugo Chavez, hinum litríka forseta Venesúela, yfir því að Lehman Brothers bankinn í Bandaríkjunum skuli vera gjaldþrota.
Bankinn gagnrýndi mjög efnahagsstefnu hans. „Þeir hafa alltaf skrifað neikvæðar skýrslur um Venesúela. Bang. Og svo urðu þeir gjaldþrota," segir Chavez.
Lehman Brothers og raun fleiri fjárfestingabankar settu spurningamerki við hraðan efnahagsvöxt Venesúela.
Þeir hafa varað landið við því að reiða sig eingögnu á olíusölu og að gera erlendum fjárfestum erfitt fyrir.
Chavez bendir á að hagvöxtur hafi verið jafn og stöðugur í bráðum fimm ár og að á öðrum ársfjórðungi í ár hafi hann verið 7,1 prósent. „Fáir hafa haft orð á þessu. Lehman Brothers gerðu það aldrei. Kannski er það þessvegna sem illa fór fyrir þeim."
Forseti Argentínu Cristina Fernandez réðst einnig nýlega á Lehman Brothers vegna umsagnar þeirra um efnahag Argentínu. „Þeir ættu að hugsa meira um eigin fjármál," sagði Fernandez fyrr í þessum mánuði.