Fótbolti

Del Piero og Trezeguet verðlaunaðir í kvöld

Del Piero og Trezeguet hafa leikið saman í framlínu Juventus síðan árið 2000
Del Piero og Trezeguet hafa leikið saman í framlínu Juventus síðan árið 2000 NordicPhotos/GettyImages

Ítalska stórveldið Juventus spilar í kvöld sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu í tvö ár eftir að hafa verið fellt niður í B-deildina í kjölfar hneykslismálsins stóra á Ítalíu.

Claudio Ranieri þjálfari hefur tilkynnt að gömlu refirnir Alessandro del Piero og David Trezeguet verði í í byrjunarliðinu gegn Zenit frá Pétursborg í kvöld, en þeir hafa verið saman í framlínu liðsins meira og minna frá aldamótum.

Ranieri segist taka þá félaga fram yfir aðra í kvöld vegna reynslu þeirra, en ekki síður vegna þeirra fórna sem þeir hafa fært fyrir félagið á umbrotatímunum síðustu ár.

"Við erum með marga nýja leikmenn í okkar röðum, en við erum líka með reynslubolta sem þekkja það að spila svona leiki - leikmenn sem hafa markað spor í sögu félagsins," sagði Ranieri og hrósaði sóknarmönnum sínum.

"Reynsla þeirra Trezeguet og del Piero hafði sitt að segja þegar ég valdi byrjunarliðið, en ég valdi þá ekki síður vegna þess sem þeir hafa fórnað fyrir félagið. Þeir voru sviptir sæti í Evrópukeppni og efstu deild á Ítalíu, en þeir héldu tryggð við félagið og komu því aftur á meðal þeirra bestu með vinnu sinni. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir þeim og því ákvað ég að láta þá spila," sagði Ranieri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×