Innlent

Notuðu barn sitt sem hnífaskotskífu

Rannsókn stendur yfir á máli þriggja barna á höfuðborgarsvæðinu sem sætt hafa alvarlegu ofbeldi af hálfu foreldris. Meðal annars hefur eitt þeirra verið notað sem hnífaskotskífa.

Börnin eru öll á grunnskólaaldri og hafa verið fjarlægð af heimilinu. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er málið eitt það alvarlegasta sem fólk í barnaverndarstarfi hefur séð. Af tillitssemi við börnin sem hlut eiga að máli og í ljósi þess hve alvarlegt og viðkvæmt málið er ætlum við ekki að nefna sveitarfélagið sem þau búa í að öðru leyti en að það er á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt heimildum Vísis og Stöðvar 2 er annað foreldri barnanna grunað um ofbeldið gegn börnunum þremur. Grunur leikur á að ofbeldið hafi staðið í langan tíma og að í einu tilfelli hafi eitt barnanna verið notað sem hnífaskotskífa, það er að hnífum hafi verið kastað að því og áverkar eftir það sést á barninu.

Málið hefur verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd í viðkomandi sveitarfélagi og hefur lögreglan tekið skýrslu af börnunum, samkvæmt heimildum fréttastofunnar, en yfirmenn rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins kannast ekki við þær skýrslutökur. Mál barna sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi koma til kasta Barnahúss en slíkt úrræði skortir fyrir börn sem verða fyrir ofbeldi af öðrum toga.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×