Slavica Ecclestone, eiginkona formúlumógúlsins Bernie Ecclestone, hefur farið fram á skilnað við bónda sinn.
Breska sjónvarpið greinir frá þessu í dag en ljóst þykir að Slavica mun ekki þurfa að hafa áhyggjur af fjármálunum á næstu árum, því eigur bónda hennar munu metnar á yfir tvo milljarða punda.
Sérfræðingur sem BBC ræddi við vegna fréttarinnar segir að frú Ecclestone gæti átt von á allt að helmingi af eigum bónda síns.
Ef svo færi yrðu það mögulega hæstu bætur sem fyrrverandi eiginkonu yrðu dæmdar í sögunni.
Ecclestone hjónin giftu sig árið 1985 og eiga saman tvær dætur.